Ármúla 42, 108 Reykjavík

Hafðu samband

Skilaboð hafa verið send.

Um kaupstadurfasteigna.is

Í flestum venjubundnum fasteignaviðskiptum eru einstaklingar og fjölskyldur oftar en ekki að tefla með aleigu sína og ævisparnað. Það er því afar mikilvægt að vel sé að þessum viðskiptum staðið í hvívetna og að þau séu samkvæmt öllum lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma.

Löggiltur fasteignasali hefur að baki löggilda menntun til að sinna fasteignaviðskiptum. Um leið er hann samkvæmt lögum orðinn opinber sýslunarmaður og á hann er lögð bæði skýr og víðtæk ábyrgð, enda verða þeir sem til hans leita og eru annað hvort að kaupa eða selja fasteign, eða hvort tveggja, að geta treyst því að vinnubrögðin séu fagleg, traust og samkvæmt lögum.

Þess ber og að geta að löggiltur fasteignasali hefur skrifað undir eið hjá Sýslumanni fyrir Innanríkisráðuneytið og er þar með bundinn trúnaði yfir öllu sem hann fær að vita eða kemst að í tengslum við einstök fasteignaviðskipti. Seljendum og kaupendum er því óhætt að treysta löggiltum fasteignasala fyrir öllum málum sem varða sölu, kaup, fjárhag eða öðru því sem við kemur viðskiptunum án þess að hætta á að það fari lengra.

Löggiltir fasteignasalar hafa einkarétt á fasteignaviðskiptum og lúta eftirliti eftirlitsnefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins. Til fullgildingar þurfa fasteignasalar að vera í félagi fasteignasala og leggja fram sérstaka ábyrgðartryggingu sem þýðir að bæði kaupendur og seljendur eru ávallt tryggðir fyrir mistökum og tjóni sem löggiltur fasteignasali kann hugsanlega að valda.

Í lögum um fasteignasölu kemur m.a. fram að fasteignasalar skuli hafa skýrt, skriflegt umboð frá seljanda fasteignar til að sinna viðskiptunum fyrir hans hönd. Í slíkum samningi kemur m.a. fram hvort um einka- eða almenna sölu sé að ræða og í hvaða kostnað skuli leggja, þ.m.t. varðandi auglýsingar á fasteigninni. Einng skal koma skýrt fram í samningnum hver sölulaun fasteignasalans skulu vera og hvernig þau eru ákveðin.

Þegar slíkt umboð liggur fyrir skal fasteignasalinn útbúa greinargott söluyfirlit yfir eignina. Honum ber sjálfum að skoða eignina og lýsa henni skriflega þannig að í lýsingunni komi fram öll grundvallaratriði sem skipta máli, svo sem stærð, ástand, lagnir, byggingarlag, byggingarefni, áhvílandi veðskuldir, skuldbindingar vegna viðhalds og fleira. Söluyfirliti er ætlað að tryggja að upplýsingaskyldu seljanda um eignina sé fullnægt.

Þær itarlegu reglur og lög sem gilda um sölu fasteigna og skyldur fasteignasala má m.a. nálgast á vef félags fasteignasala og eru seljendur ætíð hvattir til að kynna sér þær á eins ítarlegan hátt og þeim er unnt.

Það sem skiptir auðvitað mestu máli fyrir seljendur fasteigna er að velja til starfans löggiltan fasteignasala sem er traustsins verður á allan hátt og ber hag umbjóðanda sinna í brjósti umfram allt annað.

Sjá staðsetningu á korti.